Sjálfbærniskýrsla Reita 2022
Við gefum út sjáflbærniskýrslu í fjórða sinn!
Sjálfbærniskýrslan er unnin í samræmi við UFS leiðbeiningar Nasdaq og skiptist í þrjá meginkafla; umhverfi (E), félagslega þætti (S) og stjórnarhætti (G).
Skrifstofuhús Landspítala hlýtur BREEAM In-Use vottun
Byggingarnar að Skaftahlíð 24 sem hýsa skrifstofur Landspítala hlutu BREEAM In-Use vottun í apríl 2022. BREEAM In-Use er umhverfisvottun fyrir eignir í rekstri Vottunin hlaut einkunnina Excellent sem er hæsta einkunn sem íslensk fasteign hefur hlotið. Vottunin staðfestir gæði fasteignarinnar og stuðlar að sjálfbærum rekstri og vinnuumhverfi.
Byggingarnar voru endurnýjaðar með sjálfbærni sjónarmið í huga árið 2019. Sú vandaða vinna skilaði sér í því að ekki þurfti að gera miklar breytingar til að öðlast BREEAM In-Use vottun með Excellent einkunn.
BREEAM Communities vottun Korputúns
Með því að skipuleggja Korputún út frá BREEAM Communities vistvottunarstaðlinum er tryggt að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði. Krafist er víðtæks samráðs við nærsamfélagið, sjálfbærrar nýtingu lands og náttúruauðlinda ásamt áherslu á samnýtingu innviða.
BREEAM Communities er breskur vistvottunarstaðall fyrir skipulagsgerð, þar sem þriðji aðili vottar skipulagið með tilliti til samfélagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra gæða og er því gæðastimpill á skipulagið, byggðina og samfélagið sem þar mun verða til.
Nánari upplýsingar um Korputún á www.korputun.is
Samgöngumiðað skipulag
Hverfið er byggt upp í kringum Borgarlínuna og gert er ráð fyrir að hún komi til Mosfellsbæjar um svipað leiti og uppbyggingu í hverfinu líkur. Eins verða lagðir hjólastígar með tengingar við stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins og því verður auðvelt fyrir starfsfólk á svæðinu að nota aðra ferðamáta en einkabílinn og hvatt verður til þess m.a. með fræðslu.
Varðveisla lífríkisins
Skipulagið gerir ráð fyrir að byggð verði að lágmarki 100 metrum frá ánni, til að þrengja á engan hátt að náttúrulega flóðasvæði árinnar og til að varðveita lífríkið og náttúruna sem þar er. Útivistastígur verður lagður á milli byggðar og ár til að bæta aðgengi að svæðinu og vernda viðkvæma náttúru við ánna.
Samnýting og hringrásarhugsun
Hverfið er skipulagt þannig að samnýting bílastæða, sorpgeymslna og annarra stoðrýma geti verið sameiginleg í inngörðum. Hönnunin gerir þannig göturýmin minni og skalann þar mannlegri fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Okkar heimsmarkmið
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með stefnu Reita um samfélagslega ábyrgð einsetjum við okkur að stíga afgerandi skref til sjálfbærrar framtíðar innan þeirra málaflokka sem snúa að okkar starfsemi.
Starfólk Reita fór í sameiningu yfir heimsmarkmiðin og skoðaði starfsemina í samhengi við framkvæmdaáætlunina. Niðurstaða þeirrar vinnu var að Reitir geti helst beitt sér í flokkunum (8) Góð atvinna og hagvöxtur, (11) Sjálfbærar borgir og samfélög og (12) Ábyrg neysla og framleiðsla.
Ábyrg neysla og framleiðsla - Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur
Með þeim viðmiðum sem sett eru fram í stefnu Reita hvað varðar umhverfismál vilja Reitir m.a. leggja áherslu á ábyrga neyslu og framleiðslu. Reitir bauð fyrst íslenskra fasteignafélaga upp á græna leigusamninga á árinu 2013, í slíkum samningum eru leigutakar m.a. hvattir til að velja umhverfisvottaðar rekstrarvörur og velja umhverfisvænni kosti þegar kemur að rekstri húsnæðis auk þess að skrá orku- og vatnsnotkun og leitast við að draga úr sóun.
Sjálfbærar borgir og samfélög - Gera borgir og íbúðasvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg
Með ábyrgu samvali leigutaka á starfssvæðum Reita vill félagið stuðla að bættu borgarumhverfi og minni þörf fyrir mengandi samgöngur. Leitast er við að auka kolefnisjafnandi gróður við bílastæði og á öðrum óbyggðum svæðum í samráði við leigutaka. Með þátttöku í samtökunum Grænni byggð styðja Reitir faglega umræðu og rannsóknir á sviði vistvæns skipulags og mannvirkjagerðar auk þess að stuðla að fræðslu um málefnið.
Góð atvinna og hagvöxtur - stuðla að sjálfbærum hagvexti; arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum. Reitir leggja áherslu á jöfn laun og jafnan rétt einstaklinga til atvinnu í stefnu sinni auk þess sem lögð er áhersla á að mannréttindi séu virt, svo sem réttindi á vinnumarkaði, réttur til félagafrelsis og góðs aðbúnaðar, og nær sú krafa til viðskiptavina félagsins og verktaka sem sinna verklegum framkvæmdum á vegum þess.
Kolefnisjafnað með Súrefni vottaðar einingar
Losun ársins var kolefnisjöfnuð með kaupum á vottuðum kolefniseiningum hjá Súrefni vottaðar einingar, en mótvægisaðgerðirnar stuðla að verndun skóga.
Öll kolefnislosun, að undanskilinni losun vegna Reita þjónustu, sem tengist fasteignum sem Reitir hafa ekki umráð yfir, var kolefnisjöfnuð.
Nánar um Súrefni vottaðar einingar á www.surefni.is
Aukin fjölbreytni í atvinnulífinu með Specialisterne í Síðumúla
Reitir hafa stutt Specialisterne með húsnæði í Síðumúla í áratug. Markmiðið er að aðstoða ungt fólk á einhverfurófi við að komast á vinnumarkaðinn. Starfsemin í byggist á því að einstaklingarnir mæta daglega og fá aðstoð við að þjálfa upp styrkleika sína ásamt því að tekið er á veikleikum. Einstaklingsmiðuð áætlun er gerð þar sem þjálfuð er tölvufærni, farið í líkamsrækt og mikil áhersla er lögð á stundvísi og mætingu. Endamarkmiðið er atvinnuþáttaka einstaklinganna og fer ríflega helmingur í vinnu. Aðrir fara í áframhaldandi nám eða önnur úrræði.
Grænni byggð á Laugavegi 176
Grænni byggð er samstarfs- og fræðsluvettvangur aðila tengdum bygginga- og fasteignageiranum um sjálfbæra þróun byggðar.
Reitir voru meðal stofnaðila Grænni byggðar árið 2010 og hafa stutt samtökin með árlegu fjárframlagi og vinnu starfsfólks síðan.
Undanfarin þrjú ár hafa samtökin auk þess notið stuðnings frá Reitum í formi skrifstofurýmis að Laugavegi 176.
Viðurkenndir góðir stjórnarhættir
Reitir hlutu á árinu viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Reitir hafa hlotið viðurkenninguna árlega síðan 2015. Viðurkenningin er veitt á grundvelli úttektar á stjórnarháttum félagsins og tekur hún mið af leiðbeiningum um góða stjórnarhætti útgefnum af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq á Íslandi. Þessir aðilar, auk Stjórnvísi, veittu viðurkenninguna.
Verkefninu Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum er ætlað að bæta stjórnarhætti fyrirtækja á Íslandi og auka eftirfylgni stjórna þeirra við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Í verkefninu felst að fyrirtæki þurfa að undirgangast úttekt á stjórnarháttum sínum, sem framkvæmd er af viðurkenndum aðilum, til að hljóta viðurkenninguna.