Reitir 2022
Jákvæðni, samvinna og fagmennska
Gildi Reita, jákvæðni, samvinna og fagmennska eru hornsteinninn í öllu starfi Reita, hvort sem það snýr að samskiptum við viðskiptavini, verktaka eða aðra samstarfsaðila.
Stefna Reita er að halda áfram að treysta stöðu sína sem öflugasta fasteignafélag landsins. Félagið leggur áherslu á atvinnuhúsnæði, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
Markaðssókn Reita felst í styrkingu eignasafnsins með kaupum á vel völdum eignum, fasteignaþróun og auknum samskiptum við viðskiptavini, með það að markmiði að skilja þeirra þarfir og uppfylla þær.
Skýr stefna um fjármögnun og arðsemi
Stefnt er því að hlutfall vaxtaberandi lána félagsins af verðmæti fjárfestingareigna sé að jafnaði 60-65% og að hlutfall rekstrarhagnaðar af greiddum vöxtum nemi að lágmarki 1,8. Að jafnaði skal fjármagnskostnaður Reita vera í takt við fjármagnskostnað sambærilegra fyrirtækja.
Stefnt er að því að raunarðsemi eiginfjár verði til lengri tíma a.m.k. 7% yfir ávöxtunarkröfu langra verðtryggðra skuldabréfa með ríkisábyrgð en tekur þó mið af markaðsaðstæðum hverju sinni.
Viðurkenndir góðir stjórnarhættir
Stjórn Reita leggur ríka áherslu á að viðhalda góðum stjórnarháttum og taka stjórnarhættir félagsins mið af lögum um hlutafélög, lögum um ársreikninga og Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins.
Félagið er með hlutabréf sín og skuldabréf skráð í kauphöll og fylgir þeim reglum sem gilda um skráð félög, auk þeirra ákvæða sem fram koma í samþykktum félagsins, starfsreglum stjórnar og starfsreglum undirnefnda.
Reitir hlutu á árinu viðurkenningu VÍ, SA, Nasdaq og Stjórnvísi sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Reitir hafa hlotið viðurkenninguna árlega síðan 2015.
Meginhlutverk stjórnar er að stýra félaginu milli hluthafafunda og tryggja að rekstur þess og starfsemi sé í samræmi við lög, samþykktir og stefnur félagsins, auk þess hefur stjórn sett sér ítarlegar starfsreglur. Stjórn tekur meiriháttar ákvarðanir í rekstri félagsins, hefur eftirlit með að bókhald félagsins sé í samræmi við lög og að fjárreiður þess séu með tryggum hætti.
Frá aðalfundi 2022 voru haldnir þrettán stjórnarfundir. Tóku allir stjórnarmenn þátt í öllum stjórnarfundum tímabilsins. Tíu fundir voru haldnir í endurskoðunarnefnd félagsins auk eins fundar sameiginlega með stjórn félagsins. Voru allir nefndarmenn mættir á alla fundina. Í starfskjaranefnd voru haldnir fjórir fundir á starfsárinu með þátttöku beggja nefndarmanna.
Stjórn Reita fasteignafélags
-
Þórarinn V. Þórarinsson
STJÓRNARFORMAÐUR
Þórarinn er fæddur 1954 og hefur verið í stjórn Reita síðan 2009. Hann hefur starfað sem hæstaréttarlögmaður síðan 2002 og starfar á eigin lögmannsstofu, Advocatus slf. Þórarinn er meðstjórnandi í Líflandi ehf., Nesbúeggjum ehf., Grana ehf. og Forsa ehf.
-
Martha Eiríksdóttir
VARAFORMAÐUR STJÓRNAR
Martha Eiríksdóttir, fædd 1957, tók sæti í stjórn Reita árið 2013. Martha er framkvæmdastjóri og óháður stjórnarmaður. Hún lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1981 og Cand.Oecon prófi frá Háskóla Íslands 1987. Martha situr í stjórn Olíudreifingar ehf., Farice ehf., Ísfells ehf. og fleiri félaga.
-
Gréta María Grétarsdóttir
Gréta María Grétarsdóttir, fædd 1980, var kosin í stjórn Reita árið 2021. Gréta María er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og starfar sem forstjóri Arctic Adventures. Gréta María situr í stjórn í Indó Sparisjóðs ásamt því að sitja í landsstjórn Rauða krossins á Íslandi.
-
Kristinn Albertsson
Kristinn er fæddur 1965, hann tók sæti í stjórn Reita árið 2017. Kristinn er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem fjármálastjóri Samskipa samstæðunnar síðan 2007. Hann situr í stjórnum ýmissa dótturfélaga Samskipa og skyldra félaga.
-
Sigríður Sigurðardóttir
Sigríður Sigurðardóttir, fædd 1966, tók sæti í stjórn Reita árið 2019. Hún er arkitekt með Dipl. Ing. gráðu frá Þýskalandi. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun og af skipulags- og framkvæmdaverkefnum. Sigríður starfar sem sviðsstjóri Nýs Landspítala ohf. (NLSH) og situr í stjórn Reiknis ehf., Frostaskjóls ehf., SÁR ehf. og Viðju ehf.
Forstjóri og framkvæmdastjórn
Guðjón Auðunsson
Forstjóri
Guðjón er rekstrarhagfræðingur fæddur 1962. Hann hefur verið forstjóri Reita frá september 2010. Guðjón hefur gegnt stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi um árabil lengst af hjá Eimskip og Olíufélaginu Esso/N1. Guðjón er stjórnarformaður Rekstrarfélags Kringlunnar og stjórnarmaður í dótturfélögum Reita.
Einar Þorsteinsson
Fjármálastjóri og staðgengill forstjóra
Einar Þorsteinsson, fæddur 1978, hóf störf hjá Reitum 2008. Einar hefur lokið B.Sc. prófi í viðskiptafræðum frá Háskólanum í Reykjavík og prófi í verðbréfamiðlun.
Friðjón Sigurðarson
Framkvæmdastjóri þróunarsviðs
Friðjón Sigurðarson, fæddur 1978, hóf störf hjá Reitum árið 2013. Friðjón hefur lokið M.Sc. prófi í byggingarverkfræði frá DTU í Danmörku..
Kristófer Þór Pálsson
Framkvæmdastjóri viðskiptasviðs
Kristófer Þór Pálsson, fæddur 1981, hóf störf hjá Reitum árið 2016. Kristófer hefur lokið B.Sc. prófi í viðskiptafræðum frá Háskólanum í Reykjavík og prófi í verðbréfamiðlun.
Jón Kolbeinn Guðjónsson
Framkvæmdastjóri eignaumsýslusviðs
Jón Kolbeinn Guðjónsson, fæddur 1984, hóf störf hjá Reitum 2023. Hann er byggingartæknifræðingur frá háskólanum í Aarhus og er með M.Sc. próf í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Ragnheiður M. Ólafsdóttir, hrl.
Framkvæmdastjóri lögfræðisviðs
Ragnheiður M. Ólafsdóttir, fædd 1972, hóf störf hjá Reitum 2014. Ragnheiður lauk Cand.Jur. prófi frá Háskóla Íslands og er með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.