Árs- og sjálfbærniskýrsla Reita 2022

Ávarp forstjóra

Árið 2022 er eitt besta rekstrarár í sögu Reita. Heildartekjur félagsins hafa aldrei verið hærri, rekstrarhagnaður hefur aldrei verið meiri, nýtingarhlutfall eignasafnsins var mjög gott og samskipti við viðskiptavini og birgja félagsins bera merki góðra og farsælla samskipta. .
— Guðjón Auðunsson, forstjóri

Uppgjör síðasta árs ber með sér áhrif aukinnar verðbólgu, verðhækkunar aðfanga og umtalsvert hærri fjármagnskostnaðar en áður. Þá hefur skörp hækkun vaxta á seinni hluta ársins 2022 áhrif á matsbreytingu fjárfestingareigna.

Fjárfesting í eignasafninu skilar tekjum á nýju ári

Reitir er vel fjármagnað félag sem er vel í stakk búið til að ráðast í fasteignakaup og umfangsmiklar endurbætur innan eignasafnsins. Rekstrarafgangur félagsins, að teknu tilliti til ráðstöfunar til hluthafa og fjármagnsgjalda, skapar þannig grundvöll fyrir umtalsverðum árlegum fjárfestingum. Óútleigt húsnæði á árinu 2022 tengdist að stórum hluta eignum í umbreytingarferli. Þar ber hæst Pósthússtræti 5 og þriðja hæð Kringlu en þar var um að ræða stór framkvæmdaverkefni sem lauk síðla árs og eru nú farin að afla tekna.

Í Kringlunni er nú gjörbreytt umhverfi á þriðju hæðinni með endurnýjuðu veitinga- og afþreyingarsvæði sem fékk nafnið Kúmen.  Þá var ráðist í gagngera endurnýjun á bíósvæðinu þar sem nú má t.d. finna tæknivæddasta lúxus bíósal landsins. Verið er að ganga frá samningum við spennandi aðila varðandi afþreyingu á þeim stað sem gamla Stjörnutorgið var að finna áður. Þessi breyting byggir undir stærri þróunaráform þar sem Kringlan verður heildstæður lifandi borgarkjarni með afþreyingu, menningu, íbúðum, verslun og fjölbreyttri atvinnu.  

Holtagarðar munu taka stakkaskiptum á árinu, þar er unnið að breytingum á verslunarrýmum og á sameign.  Ný Bónus verslun opnar á árinu ásamt þremur verslunun frá stærstu rekstraraðilum landsins í fötum og skóm. Samtals er um að ræða um 5.900 fermetra af nýrri útleigu í Holtagörðum.

Í upphafi fjórða ársfjórðungs síðasta árs festi félagið kaup á Lambhagavegi 7 í Reykjavík sem er vandað 4.200 fermetra lagerhúsnæði.

Aðrar umtalsverðar fjárfestingar eru fyrirhugaðar innan eignasafnsins á næstu misserum og árum, svo sem í Ármúla 7-9, í Skútuvogi og við Laugaveg 176 þar sem gamla Sjónvarpshúsinu verður umbreytt í glæsilegt Hyatt Centric hótel. Þessar umræddu fjárfestingar nema allt að 10 milljörðum króna yfir næstu ár.

Þróun verðmætra reita innan eignasafnsins

Mosfellsbær og Reitir undirrituðu í byrjun maí 2022 samkomulag um uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í landi Blikastaða. Atvinnusvæðið í landi Blikastaða hefur fengið nafnið Korputún. Um er að ræða í kringum 90 þús. fermetra atvinnuhúsnæðis á um 15 hektara landsvæði. Skipulag svæðisins er samgöngumiðað með Borgarlínustöð á miðju svæðinu og hönnun þess tekur mið af BREEAM Communities vistvottunarstaðlinum. Skipulagsstofnun hefur afgreitt skipulag svæðisins og er nú beðið staðfestingar. Gert er ráð fyrir að gatnaframkvæmdir geti hafist á árinu og að framkvæmdir fyrsta áfanga, sem verður verslunarreitur, hefjist í kjölfarið. Reitir hafa í hyggju að byggja upp verslunarkjarna svæðisins í samvinnu við öfluga rekstraraðila á því sviði. Fjárfesting Reita á þeim tiltekna byggingarreit gæti numið nokkrum milljörðum króna, en forhönnun er nú í gangi. Reiknað er með að uppbygging geti tekið um tíu ár og verði mikilvægur hlekkur í verðmætasköpun til handa hluthöfum næsta áratuginn.

Þróunarreitir á Loftleiðasvæðinu, á Metróreit í Skeifunni, á svæðinu bakvið Hilton Reykjavik Nordica og Kringlureiturinn, hafa sérstakt aðdráttarafl sé horft lengra fram á veginn. Verkefnin hafa verið kynnt skipulagsyfirvöldum sem hafa tekið vel í hugmyndirnar en vinna við breytingar á deiliskipulagi er skammt á veg komin.

Sjálfbærni fær síaukið vægi

Með vönduðu skipulagi þróunarverkefna og kröfum á framkvæmdaaðila hvað varðar verklag og efnisnotkun við byggingu og viðhald fasteigna geta Reitir haft hvað mest áhrif. Líftímarannsóknir sýna að 80% af kolefnisspori bygginga verður til við byggingu þeirra og niðurrif. Áhersla Reita er því fyrst og fremst í vottun þróunarsvæðanna, í Korputúni og á Orkureit, sem afhentur var kaupanda á árinu, en þar var samið um að Reitir kláruðu vottunarferlið fyrir kaupanda svæðisins.

Þrátt fyrir að mest muni um breytt vinnubrögð í þróun og framkvæmdum er ekki litið fram hjá áhrifum reksturs bygginganna. Reitir reka almennt ekki byggingar og hafa því aðeins óbein haft áhrif á kolefnislosun á rekstrartíma með efnisvali, byggingaraðferðum og vali á húskerfum. Undanfarið hafa Reitir verið að safna upplýsingum um orkunotkun bygginganna, með því getum við betur borið kennsl á frávik sem benda til bilana eða umbótatækifæra.

Skrifstofa Landspítala að Skaftahlíð 24 hlaut BREEAM In-Use vottun á árinu, húsnæði var endurnýjað árið 2019 á mjög vandaðan hátt og reyndist því auðveldara en ella að fá vottunina. Húsnæðið fékk einkunnina excellent, sem er afburða einkunn.

Vel skilgreind verkefni framundan

Árið 2022 byrjaði heldur sérstaklega, starfsfólk á skrifstofu og verktakar á framkvæmdastöðum meira eða minna með Covid, byggingarefni var illfáanlegt, dýrtíðin magnaðist og ráðist var inn í Úkraínu, allt á fyrri hluta árs. Þegar á móti blæs er ekkert annað í stöðunni en að bretta upp ermar og halda áfram. Kúmen og nýtt Kringlubíó opnuðu og lyftu Kringlunni upp. Líf færðist á ný í fallega pósthúsið okkar í miðbænum, gengið var frá samningum um endurnýjun Holtagarða að stórum hluta og ákveðið var að halda áfram með hótelverkefnið við Laugaveg 176.

Nýja árinu fylgja síðan ný verkefni, s.s. stækkun vöruhúss Aðfanga við Skútuvog og húsnæðis Klíníkurinnar við Ármúla. Verkefni sem eiga það sameiginlegt að húsnæði sé sérsniðið og aðlagað að starfsemi leigutaka. Í því liggur kjarninn í starfseminni, í góðri samvinnu og samskiptum við leigutaka, hvort sem um er að ræða stórtækar breytingar á húsnæði eða reglubundið viðhald og rekstur.

Ég vil þakka viðskiptavinum, fjárfestum, stjórn og samstarfsfólki farsæl samskipti og gott samstarf á árinu 2022.